Er röddin að angra þig?

Þarftu hjálp með röddina?

Videoæfingar til að ná þreytu úr tal- og raddfærum.

Kennslumyndband

Þreytu náð úr talfærum

Klikkið á myndina til að fá PDF

Góðir siðir sem hlífa rödd og auka hlustunarlöngun

Röddin: Spennið ekki upp röddina, talið í eiginlegri raddhæð.

Ástæður: Fyrir hlustandann. Röddin verður áheyrilegri þar sem hún er þá gædd tónbrigðum sem hverfa við eintóna, spennta rödd. Blæbrigðarík rödd gefur málinu meiri þýðingu og fangar hlustandann.

Fyrir þig sjálfa(n). Mun minni áreynsla á radd- og talfæri þýðir meiri endingu og minni þreytu.

Ráðleggingar

Rödd

  • Syngið EKKI í raddhæð barnanna. Raddböndin kvenna eru helmingi lengri en raddbönd barna og ná því ekki þeirri tónhæð sem barnsröddin hefur. Þetta er sama og ef þið ætlið að syngja í björtum sópran.
  • Spennið ekki röddina. Gangið að börnunum ef þið þurfið að tala þau til, notið eigin raddhæð, leggið áherslu á öll atkvæði og talið hægt m.ö.o. gefið orðum ykkar þunga.
  • Talið og lesið á nægu lofti
  • Drekkið reglulega vatn yfir daginn.
  • Notið magnarakerfi þar sem því verður við komið. Þau fást orðið góð og sem 2 kennarar geta notað samtímis.

 

Loftgæði

  • Forðist ryk í lofti – teppi burtu og pappír í gáma.
  • Þar sem eru ristar í gólfi þarf að gæta þess sérlega að ryksöfnun eigi sér ekki stað.
  • Forðist að vinna með endurunninn pappír af ódýrari gerð því það hefur sýnt sig að það þyrlast úr honum örfínar gleragnir sem erta öndunarveg.
  • Fylgist með loftræstikerfum Þau vilja safna í sig ryki.
  • Stórar pottaplöntur eru notaðar til að bæta andrúmsloft.

Hávaði

  • Fækka börnum í rými
  • Setja upp skipulag t.d. hvernig börn fara eftir göngum og hve mörg börn/starfsmenn eru í fataklefa í einu.
  • Stjórnun á matar og kaffitíma. Kennari sitji t.d. við hvert borð.
  • Setja mjúka þykka dúka undir plastdúka á borðum.
  • Setja bolta eða þykka tappa undir stólfætur.
  • Hafið ekki borðbúnað sem veldur miklum hávaða eins og þungir diskar úr leir.
  • Hugið að fjölda barna við borð. Hafið börn nálægt ykkur sem eiga í erfiðleikum með sjálf sig.
  • Látið athuga hvort ekki er hægt að laga glymjandi gólf; ENGIN teppi samt.
  • Setjið dempara á hurðir svo ekki sé hægt að skella þeim.
  • Kennið kubbamenningu (ekki sturta kubbastæðum niður)
  • Setjið þykkar fjaðrandi íþróttadýnur þar sem verið er með kubba.
  • Teppi hafa enga fjöðrun og gera því takmarkað gagn.
  • Góðar einangrunarplötur í lofti og á tveim veggjum eða einangrun nái sem nemur 1/3 niður á veggina.
  • Draga úr flakki barna um stofuna.
  • Notið “eyrað” t.d. í fataklefum. Fáið tæknimann til að tengja vælu við eyrað þegar ljósið verður rautt, annars er hætt við að eyrað gleymist.
  • Leyfið börnum ALDREI að öskra. Öskur getur rústað raddfærum.

Skýrleiki

Leggið áherslu á hvert atkvæði orðs þannig að hvert talhljóð skili sér og að hver orðhluti heyrist í samsettum orðum.

Talhraði

Talið svo hægt að talfærin nái að hreyfast eðlilega. Í of hröðu tali vilja talhljóð hverfa og þar með er skilningur hlustanda settur í uppnám. Auk þess er hætt við þreytu í radd- og talfærum

Þagnir

Hafið passlegar þagnir vegna þess að:

  • Talfæri ná að slaka á.
  • Jafnvægi kemst á öndun.
  • Hlustandi fær tíma til að melta það sem sagt var.

Líkamsstaða

Passið líkamsstöðu sérstaklega þegar verið er að tala yfir hópi.
Snúið því öllum líkamanum að þeim sem þið eruð að tala við vegna þess að:
Höfuðið situr þá rétt á hálsi og talfæri lenda ekki í skekkju eða klemmu. Hreyfifrelsi raddbanda er því ekki í hættu.
Talið berst betur til þeirra sem hlusta.

Raddvernd

  • Forðastu að yfirgnæfa hávaða með röddinni.
  • Forðastu að öskra.
  • Forðastu alla spennu í talfærum, hálsi, herðum og bringu.
  • Forðastu áreynsluhvísl í hæsi. Hvíslaðu á útöndunarlofti.
  • Forðastu að tala á innöndun.
  • Forðastu að verða loftlaus á meðan þú ert að tala, lesa upphátt eða syngja.
  • Reyndu að tala sem minnst þegar þú ert móð/ur.
  • Forðastu að kalla hástöfum eða öskra á einhvern.
  • Gakktu heldur til einstaklingsins eða einstaklinganna.
  • Ræsktu þig helst aldrei.
  • Reyndu heldur að hósta veikt.
  • Píndu ekki röddina í hæsi.
  • Forðastu að spenna röddina.
  • Forðastu að spenna brjóstkassann þegar þú beitir rödd sterkt, t.d. við að kalla, og í hávaða.
  • Forðastu að tala yfir öxlina.
  • Forðastu að skekkja höfuðið þegar þú talar.
  • Forðastu að syngja þangað til að röddin er orðin hás.
  • Forðastu að syngja ef tónhæðin passar ekki.
  • Forðastu að anda að þér efnum sem geta haft skaðleg áhrif á slímhúð í hálsi.
  • Reykingar og kaffidrykkja hafa skaðleg áhrif á slímhúð í hálsi.
  • Bakflæði, ofnæmi eða astmi geta haft neikvæð áhrif á rödd.
  • Liðkaðu kjálka, tungu og varir þegar tækifæri gefst.
  • Ef þú hefur veika rödd að eðlisfari, talaðu þá hægt og á öllum atkvæðum orðsins.
  • Kveddu fast að samhljóðum til að missa sem minnst loft og til að verða skýrmæltari.
  • Hafðu oft stuttar þagnir til að slaka á talfærum og koma jafnvægi á öndun.
  • Prófaðu að anda að þér gufulofti smástund ef röddin hefur orðið fyrir álagi og svikið.
  • Drekktu vatn þegar þú þarft að tala mikið.
  • Vertu vakandi fyrir breytingu á rödd og hikaðu ekki við að leita þér hjálpar.
  • Leitaðu til læknis ef hæsi varir lengur en hálfan mánuð.
  • Leitaðu til talmeinafræðings. Á þessu sviði vinnur hann svipað og sjúkraþjálfi þ.e.a.s. losar um spennu í vöðvum.

Þeir sem þurfa að tala mikið yfir daginn ættu að gæta þess að:

  • Hita röddina upp. Ef þú þarft að tala og syngja eitthvað að ráði hitaðu þá upp röddina t.d. með því að humma lag.
  • Gættu þess að tala eða lesa með nægu lofti.á
  • Talaðu alltaf með slakan kjálkann svo tungan liggi aðeins á milli tanna í öllum öðrum hljóðum en /S/.
  • Drekktu reglulega vatn yfir daginn.
  • Liðkaðu kjálka, tungu, kinnar og varir þegar tækifæri gefst.
  • Eftir raddálag slakaðu á talfærunum með því að blása fast út í kinnar, snúa upp á varir, slaka á kjálkum og hreyfa þá létt út til hliða
  • Láttu tungu liggja slaka út úr munni smástund.
  • Ef röddin er veik talaðu þá hægt og leggðu áherslur á atkvæðin.
  • Spenntu ekki röddina upp.
  • Forðastu að kalla. Gakktu heldur til þess/þeirra sem þú þarft að tala við.

Gættu þín á hæsi

Hvað á að gera?

  1. Þegja sem mest á meðan hæsin varir.
  2. Nota áreynslulaust hvísl.

Í áreynsluhvísli er lofti þrýst upp milli raddbandanna.

Ef allir raddkerfisvöðvar eru þandir til hins ýtrasta við hvísl er það ávísun á ofreynslu. Sé hins vegar hvíslað á útöndunarlofti er það átakalaust og heyrist í raun jafn vel og áreynsluhvísl.

Atriði sem þarf að hafa í huga gagnvart þeim sem eiga í erfiðleikum með hlustun, t.d. sjúklingum og eldra fólki:

  • Standa fyrir framan einstaklinginn.
  • Byrja á að nefna hann með nafni.
  • Athuga að athyglin sé vakin/vakandi.
  • Tala hægt og skýrt.
  • Leggja áherslu á öll atkvæði orðsins.
  • Endurtaka ef þörf krefur.
  • Hafa þagnir.
  • Spenna ekki röddina upp.
  • Nota tónhæð sem er manni eðlileg.
  • Gæta þess að smáorð og endingar orða heyrist vel.
  • Nota sterka rödd en gæta þess að hún spennist ekki upp.
  • Endurtaka lykilorð í setningunni ef með þarf.
  • Nota svipbrigði, jafnvel látbragð.
  • Gera einstaklingnum auðvelt að lesa af vörum.
  • Gæta þess, að samhljóðar heyrast illa hjá fólki sem farið er að missa heyrn vegna aldurs.
  • Eldra fólk og heyrnarskertir eiga erfitt með að greina mál í há- vaða.
  • Eldra fólk á oft erfitt með að greina mál barna og kvenna því með aldrinum minnkar hæfni til að greina hljóð sem liggja á tíðnisviði skærra radda.

Talað við ung börn og þá sem ekki hafa full tök á málinu, t.d. vegna þroskafrávika eða þá sem eiga ekki íslensku að móðurmáli:

  • Tala hægt og skýrt.
  • Gæta að eigin orðaforða. Þar geta verið orð sem áheyrandi skilur ekki og hefur ekki lært.
  • Gæta að lengd málsgreina. Hlustunargeta barna og vinnsluminni er minna en okkar.
  • Bera skýrt fram endingar. Íslenskur framburður býður upp á að endingar í orðum geti heyrst illa.
  • Bera skýrt fram smáorð. Þau vilja detta niður í framburði eða renna saman við önnur orð.
  • Passa upp á margbreytileika í beygingum. Mismunandi beyging getur breytt meiningu orða t.d.: „Hún fór með hann”, (hér ræður hann engu) eða: „Hún fór með honum”, (hér er um jafn- ingja að ræða).
  • Tónbrigði. Börn „lesa” í rödd. Þess vegna er ekki sama hvernig orðin hvar, hvenær og hvernig eru notuð við þau.
  • Röng radd beiting gefur röng skilaboð.
    Svipbrigði. Börn „lesa” í svipbrigði og styðja sig við þau sér til skilnings.
  • Gefið ekki tvöföld skilaboð – segja eitt, en sýna annað í svip.
  • Látbragð. Hæfilegar, lýsandi hreyfingar geta hjálpað barninu eða einstaklingnum við að skilja betur það sem verið er að segja.
  • Snúa að einstaklingnum. Bæði berst röddin betur til eyrna áheyr- anda og hann nær að sjá framan í þann sem talar, sem auðveld- ar varalestur og að lesa í svipbrigði.

Magnarakerfi

Magnarakerfi getur verið nauðsynlegt þar sem mannsröddin er vægast sagt ekki sá sterki magnari sem hún þyrfti að vera. Þar sem hún glymur í höfði þess sem talar getur hún blekkt þannig að fólk telur rödd sína berast betur en hún gerir. Magnarakerfi leysir úr þessu þar sem röddin berst þá jafnt um allt húsakynnið. Aukabónus er sá að ef einstaklingur heyrir vel til sjálfs síns þá ræður lögmál því að hann lækkar ósjálfrátt röddina ef hann/hún heyrir til sjálfs sín og röddin verður mun þægilegri áheyrnar.

Það þarf að læra að tala í magnarakerfi og ýmislegt sem þarf að varast:

  • Nota ekki kerfið til að ná niður hávaða í áheyrendum með því að hækka í því.
  • Setja hljóðnemann ekki svo nálægt munni að blásturshljóð heyrist.
  • Vera ekki með kerfið svo hátt stillt að hljóð afbakist t.d. fari að bergmála, eða ýli í kerfinu.
  • Vera ekki með hljóðnemann of nálægt hátalara, þá er hætta á að kerfið ýli.
  • Sé magnarakerfi notað t.d. í kennslustofu þarf að hafa samráð við nemendur um hæfilegan styrkleika.

Þess ber að gæta að slökkva á kerfinu þegar ekki þarf að tala til allra áheyrenda í senn.

Share This